Landsbankinn spáir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki stýrivexti um 0,25 prósentur og að þeir fari úr 1,25% upp í 1,5% við næstu ákvörðun. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans.
Sjá einnig: Kaupa eða leigja?
Seðlabankinn hefur hækkað vexti í maí og ágúst um 0,25 prósentustig í hvort skiptið. Þetta yrði þá þriðja vaxtahækkun Seðlabankans í röð.
Verðbólgunni haldið uppi af miklum íbúðaverðshækkunum
“Það sem einkennt hefur verðbólguþróunina síðustu mánuði er að verðbólgunni hefur verið haldið uppi af miklum hækkunum á íbúðaverði. Í upphafi árs var staðan önnur því verðbólga án húsnæðis sló í 4,8% í mars en hefur síðan þá hjaðnað hratt og mældist 3,3% í september.” segir í hagsjánni.
Eins og hefur komið fram hér áður þá hefur Seðlabankinn verið að herða ýmsar reglur til að slá á þá óhóflegu verðhækkanir á íbúðamarkaði.
Vextir gætu hækkað meira
“Í ljósi þess að tveir nefndarmenn í peningastefnunefndinni lýstu yfir áhuga á að fara brattar í vaxtahækkanir á síðasta fundi er ekki útilokað að vextir verði hækkaðir um 0,5 prósentustig nú. Það sem mælir hins vegar á móti þörf fyrir brattari stýrivaxtahækkun nú er að enn á eftir að gefa fyrri vaxtahækkunum tíma til að virka að fullu auk þess sem óljóst er hversu kælandi áhrif innleiðing á nýjum reglum um hámarksgreiðslubyrði munu hafa á íbúðamarkaðinn.” segir í hagsjánni.