Kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði á milli mánaða úr 409 í 394 í nóvember miðað við árstíðaleiðréttar tölur en kaupsamningar hafa ekki verið færri þar síðan 2012. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu HMS fyrir janúar 2023.
Færri íbúðir seljast á yfirverði
“Þrátt fyrir að flestir mælikvarðar sýni að markaðurinn sé að kólna hratt þá eru enn tiltölulega hátt hlutfall íbúða sem seljast á yfirverði. Á höfuðborgarsvæðinu seldust 17,4% íbúða í desember á yfirverði samanborið við 19,3% í nóvember og 23,9% í október. Þar af seldust 18,6% sérbýla yfir ásettu verði en 16,6% íbúða í fjölbýli. Í nágrannasveitarfélögunum er hlutfall yfirverðs komið á svipað ról og það var fyrir COVID19 en þar seldust 8% íbúða á yfirverði í desember. Annars staðar á landinu seldust 18% íbúða á yfirverði,” segir í skýrslunni.
Sjá einnig: Íbúðaverð heldur áfram að lækka
Fasteignamarkaður orðinn kaupendamarkaður
Birgðatími hefur aukist hratt frá því í júní þegar hann var 1,1 mánuður en birgðatími á höfuðborgarsvæðinu var 3,1 mánuður nú í byrjun janúar sem þýðir að það tæki svo langan tíma að selja jafn margar íbúðir og voru þá til sölu ef fjöldi viðskipta yrði sá sami og í desember. Aukinn birgðatími gefur til kynna að nú sé fasteignamarkaður meiri kaupendamarkaður en seljendamarkaður.
Leigumarkaður hækkar
“Vísitala leiguverðs var 231,6 stig í desember síðastliðnum og hækkaði um 1,6% frá fyrri mánuði. Tólf mánaða hækkun leiguverðs nemur nú 10,3% og hefur ekki verið meiri frá því í byrjun ársins 2018. Í desember mældist verðbólgan um 9,6% sem þýðir að tólf mánaða raunbreyting leiguverðs er orðin jákvæð aftur en þar áður var hún síðast jákvæð í maí 2022,” segir í skýrslunni.