fbpx
Facebook
Twitter
LinkedIn
Picture of Ægir Hreinn Bjarnason

Ægir Hreinn Bjarnason

Starfar hjá Trausta fasteignasölu
690-5220
aegir@trausti.is

Ertu í söluhugleiðingum?
Fáðu frítt söluverðmat með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Mikið hefur dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði eins og komið hefur fram áður. Kaupsamningar voru 5.672 á síðasta ári á höfuðborgarsvæðinu en 8.454 árið 2021. Kaupsamningar hafa ekki verið færri á einu ári síðan 2013. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu HMS.

Íbúðaverð lækkar þriðja mánuðinn í röð

“Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,5% á milli mánaða í janúar samkvæmt vísitölu söluverðs og er þetta þriðji mánuðurinn í röð sem það lækkar. Þar af lækkuðu íbúðir í fjölbýli um 0,4% og sérbýli um 0,7%. Á síðustu þremur mánuðum hefur verð á sérbýli lækkað um 4% en verð á fjölbýli um 0,4%. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hækkaði íbúðaverð um 1,1% í janúar en þriggja mánaða breytingin er þó neikvæð um 2,7%. Þar eru því talsverðar sveiflur á milli mánaða. Annars staðar á landsbyggðinni lækkaði íbúðaverð um 0,6% á milli mánaða.

Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 14,9% en 6 mánaða hækkun er orðin neikvæð um 1% á ársgrundvelli. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2010 sem íbúðaverð lækkar á 6 mánaða tímabili. Svipaða sögu er að segja af nágrannasveitarfélögum
höfuðborgarsvæðisins en þar er 12 mánaða breytingin komin niður í 17,3% en 6 mánaða breytingin neikvæð um 0,7% á ársgrundvelli. Ástæða þess að svo mikill munur er á 12 mánaða og 6 mánaða breytingu íbúðaverðs er að íbúðaverð hækkaði mikið á fyrri hluta tímabilsins en verulega fór að hægja á verðhækkunum eftir að Seðlabankinn setti aukinn kraft í stýrivaxtahækkanir í maí,” segir í skýrslunni.

Enn hækka stýrivextir

Megindrifkraftur sveiflna á fasteignamarkaði hafa verið vextir sem hafa haft mikil áhrifa á mánaðargreiðslubyrði af húsnæðislánum.

“Greiðslubyrði óverðtryggðra lána hækkar í beinu samhengi við hækkun vaxta. Greiðslubyrði heimilis sem skuldar 40 m.kr. óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum mun hækka um nærri 13.800 kr. á mánuði. Þá verður greiðslubyrðin búin að hækka um ríflega 124.000 kr. frá því í apríl 2021 þegar vextir voru í lágmarki. Fólk sem er með fasta vexti hefur verið verndað gegn slíkum hækkunum en um 75 ma.kr. af útistandandi íbúðalánum á föstum óverðtryggðum vöxtum eru með endurskoðun á þessu ári og 265 ma.kr. á því næsta. Íbúðakaupendur standa bæði frammi fyrir hærra fasteignaverði og hærri vöxtum. Heimili með svo há lán myndi lækka greiðslubyrði sína um meira en 100.000 kr. á mánuði með því að endurfjármagna með verðtryggðu láni, jafnvel þó það tæki lán til 30 ára í stað 40. Hækkun stýrivaxta hefur nú gert óverðtryggð lán óaðgengileg mörgum. Hækkanirnar hafa hins vegar temprandi áhrif á verðbólgu og stuðla þannig að því að óverðtryggð lán verði aftur aðgengilegri í framtíðinni,” segir í skýrslunni.

Skráðu þig á póstlista

Við sendum fréttir af fasteignamarkaðnum, góð ráð og fleira tengt fasteignum :)

Tengt efni