Nú hefur Seðlabankastjóri og peningastefnunefnd Seðlabankans ákveðið að hækka stýrivexti fjórtanda skiptið í röð, en stýrivextir voru hækkaðir um 0,5% síðastliðinn miðvikudag.
Förum aðeins yfir hvaða áhrif þetta hefur á fasteignamarkaðinn og við hverju má búast á næstu misserum.
Eins og kemur fram í síðustu frétt hefur fasteignaverð lækkað síðustu 2 mánuði og 12 mánaða hækkun vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu stendur í 0,8%. Sem þýðir að fasteignaverð hefur eiginlega staðið í stað síðasta árið.
Staðan á markaðnum í dag er þannig að það er mikill íbúðaskortur og því hærra sem vextir fara, því erfiðara verður að byggja fleiri íbúðir en eins og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka Iðnaðarins, segir í frétt á vef Viðskiptablaðsins, þá er fólksfjölgun mikil. Í fyrra voru fjórir nýir íbúar í landinu um hverja nýja íbúð og horfur á að hlutfallið verði svipað í ár. Eðlilegt er að það séu 2-2,5 nýir íbúar um hverja nýja íbúð.
Eins og kemur fram í mánaðarskýrslu HMS er gjaldþrotum í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð að fjölga en í maí síðastliðinn urðu 37 fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð gjaldþrota og var þetta þriðji mánuðurinn á árinu sem gjaldþrotin voru fleiri en 30. Gjaldþrot í greininni hafa ekki verið fleiri síðan árið 2012 sé miðað við 6 mánaða hlaupandi árstíðaleiðrétt meðaltal.
Fram undan eru kjarasamningar og ríkisstjórnin er að fara að leggja fram fjárlagafrumvarp í byrjun þings í október. Svo verður einnig næsta stýrisvaxtaákvörðun í byrjun október.
Fram að því myndi ég telja að fasteignaverð standi í stað eða jafnvel lækki aðeins, en ljóst er að mikil eftirspurnarspenna er í landinu eftir íbúðum vegna fólksfjölgunar og íbúðaskorts. Hins vegar eru fasteignakaup að verða sífellt erfiðari fyrir fólk út af háum vöxtum.
Ég á erfitt með að trúa að fasteignaverð lækki mikið á næstu mánuðum og árum vegna íbúðaskorts en það gæti komið svokallað frost á markað, þar sem lítið selst, ef vextir halda áfram að hækka.
Svo fer það eftir næstu vaxtaákvörðunum Seðlabankans, hvernig laun hækka og fleira sem mun hafa áhrif á fasteignaverð á næstu mánuðum og árum.