Eftir miklar hækkanir á fasteignamarkaði virðist hann vera að kólna ansi hratt. Vextir hækka og framboð af íbúðum til sölu er að aukast hratt. Þetta kemur fram í frétt eftir Bergþóru Baldursdóttur á vef Íslandsbanka.
Sjá einnig: Er þetta toppurinn á húsnæðismarkaði?
“Eins og flestir vita hefur verið mikið fjör á íbúðamarkaði undanfarin misseri. Íbúðaverð byrjaði að hækka nánast við upphaf faraldursins og ári síðar bætti í hækkunartaktinn sem hefur hækkað hratt nær sleitulaust síðan. Nú er viðsnúningur á íbúðamarkaði hafinn, íbúðaverð er loksins að hægja á sér og það frekar hratt,” segir í fréttinni.
Það hlaut að koma að því að þessar hækkanir myndu taka enda, enda gat þetta ekki haldið svona endalaust áfram. Það eru nokkrir hlutir sem benda til þess að toppnum á fasteignamarkaði virðist hafa verið náð:
Vextir hafa hækkað töluvert en seðlabankinn hóf að hækka vexti og herða á lánaskilyrðum í fyrravor.
Fleiri fasteignir eru til sölu, en í byrjun október á þessu ári voru um 1.400 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu á miðað við um 450 íbúðir í febrúar á þessu ári.
Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,4% í ágústmánuði á milli mánaða sem er í fyrsta skipti sem vísitalan lækkaði á milli mánaða frá því í nóvember 2019.
“Þó eftirspurn sé að minnka ríkir enn talsverð eftirspurnarspenna á markaði. Meðalsölutími er enn mjög stuttur og enn selst fjöldi íbúða yfir ásettu verði. Framboð nýrra íbúða verður einnig að taka við sér til þess að betra jafnvægi náist á markaðinum,” segir í fréttinni