Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 19,9% frá yfirstandandi ári en það er umtalsvert meiri hækkun en í fyrra en þá hækkaði fasteignamat um 7,4%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá.
Mest hækkun á Suðurlandi
“Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 20,2% en um 19,2% á landsbyggðinni. Þar af er mest hækkun á Suðurlandi eða 22,4%, um 19,3% á Vestfjörðum, 18,8% á Suðurnesi og Norðurlandi-eystra, 18,1% á Vesturlandi, 15,2% á Norðurlandi-vestra og um 14,9% á Austurlandi.
Af einstaka sveitarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest í Hveragerðisbæ eða um 32,3%, hækkun nemur 32,1% í Sveitarfélaginu Árborg og um 29,3% í Skorradalshreppi. Minnsta hækkun er í Dalvíkurbyggð eða um 8,1% og 9,3% í Dalabyggð og Skútustaðahreppi,” segir í tilkynningunni.
Fljótsdalshreppur, Árborg og Hveragerði hækka mest
Mesta hækkun á íbúðamati er í Fljótsdalshreppi en þar hækkar íbúðarmatið um 38,9%, hækkunin nemur 36,6% í Sveitarfélaginu Árborg og í Hveragerðisbæ. Minnstu hækkanir á íbúðamati eru í Dalvíkurbyggð þar sem fasteignamat íbúða hækkar um 6,2%. Í Hörgársveit og Skútustaðahreppi hækkar matið um 8,5%.
Sumarhús hækka um 20,3% en atvinnuhúsnæði um 10,2%
Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2023 hækkar um 20,3% þegar litið er á landið í heild en 28,6% á höfuðborgarsvæðinu. Minnsta hækkunin er á Norðurlandi-eystra þar sem hækkunin er um 9%.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 10,2% á landinu öllu en um 9,6% á höfuðborgarsvæðinu og 11,5% á landsbyggðinni.