Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um 1,25% á miðvikudaginn, þann 24. maí eða úr 7,5% í 8,75%.
Eins og við höfum rætt um áður þá töldum við líklegt að hækkanir á stýrisvöxtum myndu leiða til lækkana á fasteignamarkaði en svo hefur ekki verið, en eins og kemur fram í mánaðarskýrslu HMS fyrir maí 2023, hefur íbúðaverð verið nokkuð stöðugt þrátt fyrir vaxtahækkanir en hefur hækkað um 2,6% á síðustu 3 mánuðum.
Sjá einnig: Íbúðaverð heldur áfram að hækka
Þessi hækkun gæti orsakast vegna íbúðaskorts en þar sem reynst hefur erfitt fyrir fyrstu kaupendur að koma inn á fasteignamarkað ríkir mikil spenna eftirspurnarmegin.
Talað hefur verið um að byggja þurfi mikið af íbúðum til að annast eftirspurn á fasteignamarkaði. Því hærra, hins vegar, sem stýrivextir fara því erfiðara og kostnaðarsamara verður að byggja sem gerir það að verkum að færri íbúðir verði byggðar sem þýðir að fasteignaverð heldur að öllum líkindum áfram að hækka.
Þar sem mikill íbúðaskortur er á landinu verður erfitt að ná tökum á hækkun fasteignaverðs, en einnig þar sem stutt er í næstu kjarasamningalotu sem mun auka kaupmátt vegna hækkandi launa.
Íslandsbanki spáir að toppurinn á stýrisvöxtum verði 9,5% og ættu að byrja að lækka í byrjun árs 2024.
Óljóst er hvernig fasteignaverð mun þróast á næstu mánuðum og árum, en ljóst er að það er mikil spenna eftirspurnarmegin, erfitt verður að byggja í takt við íbúafjölgun, sem mun hafa hækkandi áhrif á fasteignamarkað. Það sem mun hafa lækkandi áhrif á fasteignamarkað er hækkun vaxta og fjölgun íbúða sem eru í sölu hverju sinni. Hins vegar, þegar vextir byrja að lækka aftur er hætta á því að fasteignaverð byrjar aftur að hækka, og það gæti hækkað hratt!