Íbúðaverð hækkaði á bilinu 9-36% á þriðja ársfjórðungi í þéttbýliskjörnum í kringum höfuðborgarsvæðið. Mesta hækkunin var í Árborg þar sem hækkunin var 36% en næstmest á Akranesi þar sem hækkunin var 20%. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.
Sjá einnig: Viljinn til að leigja húsnæði fremur en að búa í eigin húsnæði eykst á milli ára.
Verðbilið miðað við höfuðborgarsvæðið minnkar
“Þrátt fyrir þessar hækkanir er fermetraverð íbúða enn talsvert lægra í kjörnum utan höfuðborgarsvæðisins, á bilinu 24-37% lægra. Minnstu munar í Árborg þar sem fermetraverð er að jafnaði 24% lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir ári síðan var fermetraverðið hins vegar 34% lægra, áður en íbúðaverð í Árborg tók að hækka hraðar en á höfuðborgarsvæðinu. Munurinn á verðlagi eftir svæðunum fer því minnkandi þó enn sé talsvert ódýrara að kaupa húsnæði í Árborg samanborið við höfuðborgarsvæðið,” segir í Hagsjánni.
Íbúðauppbygging eykst
Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins eru nú 33% fleiri íbúðir í byggingu í kringum höfuðborgarsvæðið samanborið við stöðuna fyrir ári síðan.