Í byrjun febrúar voru aðeins 1.031 íbúðir til sölu á landinu en það er um 74% færri íbúðir en þegar mest lét í maí árið 2020 þegar nærri 4.000 íbúðir voru til sölu. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fyrir febrúar 2022.
Sjá einnig: Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 18,4% síðastliðna 12 mánuði
“Á síðustu mánuðum hefur samdrátturinn verið mestur á höfuðborgarsvæðinu en þar voru 440 íbúðir til sölu í byrjun febrúar en framboðið var um 490 íbúðir í byrjun janúar sl. og ríflega 600 íbúðir í byrjun desember. Framboð íbúða til sölu hefur því dregist saman um 27% á síðustu tveimur mánuðum. Sérstaklega hefur dregið úr framboði nýrra íbúða en þær voru tæplega 70 í byrjun febrúar sem er verulegur samdráttur frá því í maí 2020 þegar þær voru um 900 talsins rétt áður en lækkunartakturinn byrjaði,” segir í skýrslunni.
Fasteignaverð heldur áfram að hækka
Fasteignaverð heldur hins vegar áfram að hækka og hækkaði um 1,5% í desember á milli mánaða á landinu öllu miðað við vísitölu söluverðs HMS. Á síðustu tólf mánuðum hefur það hækkað um 16,6% og 3,4% á síðustu þremur mánuðum.