Yfirleitt hefur hlutfallið á íbúðum sem seljast yfir ásettu verði verið 7-15% en í mars seldist í fyrsta sinn yfir helmingur íbúða yfir ásettu verði eða 51,2% íbúða. Í febrúar var hlutfallið 46,4%. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Sjá einnig: Fasteignamarkaðurinn 2021
Meðalsölutími íbúða hefur aldrei verið styttri
“Meðalsölutími íbúða í mars var 35,8 dagar á höfuðborgarsvæðinu og hefur aldrei verið lægri. í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var einnig um met að ræða þar sem meðalsölutíminn var 44,1 dagar. Annars staðar á landsbyggðinni hefur meðalsölutíminn lengst nokkuð undanfarna tvo mánuði og er nú 71,4 dagar en sveiflur þar eru miklar og því of snemmt að segja til um hvort um viðsnúning sé að ræða,” segir í skýrslunni.
Íbúðaverð heldur áfram að hækka
Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs mældist 22,3% á landinu öllu samkvæmt vísitölu paraðra viðskipta. Takmarkað framboð og meiri eftirspurn hefur leitt til mikilla verðhækkana.
Leigumarkaðurinn
“Hækkunartaktur leiguverðs hefur legið upp á við að undanförnu eftir nokkurn slaka sem einkenndi leigumarkaðinn árin 2019 og 2020. Í mars sl. mældist 12 mánaða hækkun leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu 8,1% miðað við vísitölu leiguverðs en í nágrannasveitarfélögum þess mældist hún 8,5% og annars staðar á landsbyggðinni 5,7%. Minnst hefur leiguverð hækkað á Suðurlandi eða 3,6%.
Meðaltal greiddrar leigu er nú um 205 þ.kr. á höfuðborgarsvæðinu, 178 þ.kr. í nágrannasveitarfélögum þess og 135 þ.kr. annars staðar á landsbyggðinni,” segir í skýrslunni.